146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:49]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsögu á áliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Ég verð að taka undir með henni, og því sem kom svo sem fram í meirihlutaáliti fjárlaganefndar varðandi ríkisfjármálastefnuna, þ.e. varðandi framkvæmdir, að þær þurfi að sviðsmyndagreina með tilliti til m.a. kaldra svæða. Ég tel að það sé mikilvægt að við förum í margs konar vinnu og spyr þingmanninn, þar sem það er nú í okkar kjördæmi og mér dettur það í hug varðandi ofanflóðamannvirkin í Neskaupstað sem hefur verið kallað eftir þar sem allt er á svæðinu enn þá, hvort hún myndi styðja að slíkt yrði gert. Það er jarðvegsvinna sem er kannski ekki þensluhvetjandi.

Síðan langar mig að spyrja þingmanninn um viðbrögð nágrannasveitarfélaga gagnvart gjaldtökunni sem hún kom inn á og þær hugmyndir sem uppi hafa verið á höfuðborgarsvæðinu, hvort henni finnist þær þess verðar að hlusta á þær. Ég hef þá skoðun að aukinn (Forseti hringir.) efnahagslegur ójöfnuður verði til í því ef við ætlum að fara að rukka hér inn og út úr borginni.