146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:56]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta andsvar. Ég hef metnað fyrir hönd sveitarstjórna úti um landið og tel að það sé styrkur fyrir ríkið að sveitarstjórnir standi vel og geti sinnt þeim verkefnum sem þeim eru falin. Sveitarfélög hafa núna í mörg ár kvartað undan að þau hafi ekki nægar tekjur. Hins vegar er það alveg ljóst að við erum með ákveðnar reglur um útsvarstekjur og ákveðna stöðu hvað varðar útgjöld sveitarfélaga vegna þeirrar uppbyggingar sem fara þarf í vegna aukningar ferðamanna. Það þarf að huga að heildstæðri stefnu í því.