146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:59]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Gunnarsdóttur fyrir ræðuna þar sem hún fór í gegnum álit umhverfis- og samgöngunefndar. Nokkrar spurningar vöknuðu hjá mér við að hlusta á hv. þingmann. Eitt af því sem væri áhugavert að heyra frá hv. þingmanni er nokkuð sem ég hef alltaf átt svolítið erfitt með að skilja: Hvernig stendur á því að Sjálfstæðismenn eru svo mikið á móti því að hækka skatta en virðast hins vegar mjög fylgjandi því að hækka gjöld? Í raun má segja að hér sé verið að tala um að rukka inn ákveðna peninga í samfélagslega sjóði. Við stjórnmálamenn tökum síðan ákvörðun um hvernig við nýtum þá með sem bestum hætti. Ég vil aðeins fá fræðslu frá hv. þingmanni: Hver (Forseti hringir.) er ástæðan fyrir því að skattar eru ómögulegir en gjaldtaka bara allt í lagi?