146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:02]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í raun tökum við samt sem áður inn ákveðna fjármuni. Hér heldur hv. þingmaður því fram að einstaklingarnir taki þá ákvörðun um að borga þetta gjald en væntanlega ekki um að borga skatta, þótt ýmsir hafi svo sem sagt að þeir séu jákvæðir gagnvart því að borga skatta og hjálpa þeim sem minna hafa á milli handanna. En það er gjaldtaka víða; það er gjaldtaka í skólum og í heilbrigðiskerfinu, sem fólk hefur samt sem áður ekkert endilega val um að nýta sér þá þjónustu. Ég held að þetta sé mjög mikilvæg spurning. Við heyrðum að bæði Sjálfstæðisflokkurinn og hinn hægri flokkurinn, Viðreisn, töluðu mjög mikið um að það mætti alls ekki hækka skatta. En síðan höfðu ráðherrarnir varla sleppt þeirri áherslu þegar þeir sögðu að það mætti hins vegar koma með alls konar gjöld á alls konar liði til að fjármagna verkefnin (Forseti hringir.) sem við erum þó öll sammála um að fara í. Af hverju má ekki tryggja að þeir sem hafa aðeins breiðari bök hjálpi þeim sem minna eiga í gegnum skatta?