146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:04]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætlaði að spyrja hérna um almenningssamgöngur og verkefni sveitarfélaga en ég stenst nú ekki mátið að spyrja um skatta og gjöld. Er það ekki skilningur hv. þingmanns eins og minn að gjöld geti þá nefnilega lagst harkalegar á þá einstaklinga sem hafa minna milli handanna? Því að það er flöt tala. Finnst henni birtast í því eitthvert réttlæti umfram það að vera með tekjuskatt sem tekur þá mið af því hlutfallslega? (Gripið fram í.) Já, eða ýmsa aðra tegund.

Svo talar hv. þingmaður um að samræmi sé á milli þeirra verkefna sem sveitarfélög taka að sér og þeirra tekna sem falla til, og að brýnt sé að halda áfram uppbyggingu almenningssamgangna og góðu samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Er hv. þingmanni kunnugt (Forseti hringir.) um að það hafa verið ótrúlega vond samskipti milli ríkis og sveitarfélaga og að sveitarfélögin víða um land skulda orðið stórar upphæðir vegna vanefnda ríkisins?