146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:19]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Nú er það svo að ferðaþjónustan hefur búið við ívilnanir, ef svo má segja, með því að þjónustan er seld í lægra virðisaukaskattsþrepi. En ekki hefur verið mikil festa í umræðu í kringum gjaldtöku í greininni. Ýmist hefur verið talað um komugjöld, virðisaukaskatt eða náttúrupassa og guð má vita hvað. Þess vegna varð ég ánægð með að sjá það í fjármálaáætlun að þarna fékk greinin góðan tíma til að undirbúa sig, frá 1. apríl til 1. júlí. En nú hefur meiri hluti fjárlaganefndar, og þar á meðal þingflokksformaður Viðreisnar, hv. þingmaður, kippt þessu úr sambandi og aftur búið til óvissu. Það virkar á mann eins og stjórnarliðar skipti um skoðun eftir því við hvaða hagsmunaaðila þeir eru að ræða hverju sinni. Það lyktar svolítið af því.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún taki ekki undir það með mér að þessi tillaga (Forseti hringir.) meiri hluta fjárlaganefndar setji svolítið í uppnám áætlanir ferðaþjónustunnar.