146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:23]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Ég þakka fyrir. Ég varð nú ekki vör við neina spurningu í þessu andsvari. En ég ætla nú samt að … (LE: Þarf það?) Ef ég á að svara einhverju þarf það, en ég ætla nú að halda áfram ef ég má. En ég ætla nú samt (Gripið fram í.) að koma fram með athugasemdir við orð hv. þingmanns. Í fyrsta lagi, eins og komið hefur hér ítrekað fram, t.d. í máli hv. formanns fjárlaganefndar, líður hæstv. efnahags- og fjármálaráðherra ágætlega. Hann veit að málið fór í þinglega meðferð og ég er þá bara ekki á sama máli og hv. þm. Oddný Harðardóttir ef þingleg meðferð á jafn viðamiklu máli og hér ræðir um og þær fjölmörgu athugasemdir sem komið hafa fram, til viðbótar við þá staðreynd að málið var unnið í ákveðnum flýti út frá ytri aðstæðum, skiptir bara engu máli. (Gripið fram í.) Þá hefði ég bara getað sleppt þessu máli öllu. (Forseti hringir.) Ég er heldur ekki sammála því

(Forseti (UBK): Ekki frammíköll.)

að þetta setji ferðaþjónustuna í eitthvert uppnám og það vanti festu. (Forseti hringir.) Málið kemur fram í haust, mögulega sem þessi tillaga um virðisaukaskattsbreytinguna. En hún er þá byggð á þeim sterku stoðum, rannsóknum og greiningu sem kallað var eftir.