146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:25]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni, varaformanni fjárlaganefndar, fyrir ræðuna. Ég verð að viðurkenna að ég á enn þá dálítið erfitt með að átta mig á nefndaráliti meiri hlutans, ef ég er algerlega hreinskilin. Ég er vön því að lesa mikið og túlka það sem ég les. Mér finnst mjög merkileg niðurstaðan sem kemur í nefndaráliti meiri hlutans þar sem í raun og veru er sagt að meiri hlutinn leggist gegn breytingu á virðisaukaskatti á miðju ári, telji ástæðu til að greina komugjöld sem leið til tekjuöflunar, væntanlega, frá ferðaþjónustu fremur en breytingu á virðisaukaskatti, en leggur svo til að tillagan verði samþykkt. Mér finnst þetta svo merkileg niðurstaða. Ef ég væri t.d. að kenna ritgerðasmíð hefði ég spurt: Hvernig nákvæmlega leiða röksemdirnar að þessari niðurstöðu? Mig langar að spyrja hv. varaformann fjárlaganefndar: Hver er niðurstaða nefndarinnar? Af hverju leggur meiri hluti nefndarinnar til að tillagan verði samþykkt þegar meiri hlutinn er nýbúinn að færa rök fyrir því (Forseti hringir.) að það beri ekki að samþykkja hana óbreytta?