146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:26]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Ég þakka andsvarið. Meiri hluti fjárlaganefndar er ekki að gera tillögur um breytingar á þingsályktunartillögunni um fjármálaáætlunina, um þau markmið um afkomu og efnahag og þróun tekna og gjalda sem þar eru sett fram. Yfirgnæfandi stærstur hluti þessa skjals, áætlunarinnar, er stefnumótunarþátturinn. Það er við þann þátt sem við gerum athugasemdir að teknu tilliti til þinglegrar meðferðar og athugasemda fjölmargra aðila, ekki aðeins annarra fastanefnda sem fengu til sín gesti heldur þessa allt að 200 aðila sem við komum með að málinu, þar liggja athugasemdir okkar, þar liggja tillögur og ábendingar um að ákveðin mál séu skoðuð frekar innan áætlunarinnar. Það getur vel verið að sem skáldsöguform eða heimildasaga hefði þetta átt að vera byggt upp einhvern veginn öðruvísi. En mér þykir meira máli skipta að skilaboðin eru skýr: (Forseti hringir.) Meiri hluti fjárlaganefndar samþykkir þessa áætlun og kemur ekki með breytingartillögur.