146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:32]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Ég þakka andsvarið. Hv. þm. Eygló Harðardóttir talar um að tekið hafi verið undir sjónarmið um að taka til baka skerðinguna í framhaldsskólunum, að minnsta kosti tímabundið á meðan þetta væri að nást. Það sýnir nákvæmlega og er ein birtingarmynd þeirrar vinnu sem lögð var í þessa umsögn.

Varðandi hælisleitendur og þá sem koma hingað og leita skjóls er bara gríðarlega yfirgripsmikið verkefni að gera þetta á þann máta að okkur sem þjóðfélagi sé sómi að og að við sinnum jafnframt skyldum okkar sem rík þjóð í alþjóðasamfélaginu. Það er búið að auka í þessi mál um 2 milljarða samkvæmt þessari áætlun. Ég sé fyrir mér að þetta eigi eftir að verða eitt af þeim stóru málum þar sem hægt sé að seilast endalaust í. Ég legg mikla áherslu á að samhliða þessari aukningu verði farið í stefnumótun og við leggjum vinnu í að gera þetta á þann hátt (Forseti hringir.) að það taki sem stystan tíma. Stóra málið fyrir það fólk sem leitar hingað er að ferlin séu skýr og að við stöndum við skuldbindingar okkar og helst betur en það. Aukningin sem kemur í þessari áætlun er alla vega skref í rétta átt, (Forseti hringir.) en ég held (Forseti hringir.) jafnframt að töluverðrar stefnumótunarvinnu sé þörf.