146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:33]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur að sjálfsögðu fram í nefndarálitinu að hraða þurfi umsóknum. Það er nákvæmlega það sem Útlendingastofnun hefur verið að gera. En þegar umsóknum fjölgar sífellt er alveg sama hversu marga lögfræðinga menn ráða inn og þó að þeir vinni hverja umsókn hraðar þá fjölgar þeim stöðugt. Í áætluninni er talað um 700 umsóknir, stofnunin heldur að það verði hátt í 2.000 umsóknir og bendir á að í ljósi breyttra laga þurfi að gera einhvers konar samning eða ramma fyrir stofnunina þannig að ekki verði gengið á aðra þætti, önnur mikilvæg verkefni sem heyra undir málaflokkinn. Það er ekki lengur hægt að koma inn í þingið með fjáraukalög og biðja um auknar fjárveitingar. Þess vegna saknaði ég þess mjög að ekki skyldi vera bent á að þetta væri einn af stóru áhættuþáttunum í fjármálaáætluninni, að áætlunin stæðist einfaldlega ekki. Hér erum við ekki að tala um einhverja tugi milljóna króna, (Forseti hringir.) ekki um hundruð, við erum að tala um jafnvel fleiri milljarða sem gæti vantað inn í málaflokkinn ef við ætlum að gera þetta sómasamlega.