146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:05]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég sagði áðan í ræðu minni var uppbygging innviða stóra kosningamálið. Það var það sem bar langtum hæst í allri kosningabaráttunni hjá öllum flokkum. Það voru fyrirætlanir um hvernig ætti að standa að uppbyggingu í heilbrigðismálum, í skólamálum, í samgöngum — um þetta vorum við öll rukkuð. Það er alveg óhætt að segja að flokkarnir töluðu einu máli. Ég sat á fundum þar sem allir flokkar tóku undir að það væri að sjálfsögðu lykilatriði að ná markmiðum OECD í háskólafjármögnun og meðaltali Norðurlandanna. Ég sat á fundum þar sem allir flokkar tóku undir ákveðin markmið í heilbrigðismálum.

Hv. þingmaður spyr um stjórnarmyndunarviðræður. Mér finnst fara best á því að þar tali ég fyrir minn flokk. Við í Vinstri grænum vorum allan tímann með augun opin fyrir því, fyrir og eftir kosningar, að til þess að geta staðið við þær væntingar sem við vöktum í kosningabaráttunni þyrfti að afla tekna. Við vildum gera það með sanngjörnum hætti (Forseti hringir.) og leggja auknar álögur á þá sem mestan auðinn eiga eins og ég kom að í ræðu minni. Það var okkar forsenda. Um hana voru ekki allir sammála.