146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:07]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta er hluti af því sem ég tel að geri þessa áætlun ógagnsæja. Hv. þingmaður nefnir heilbrigðismálin. Við erum til að mynda með framlög til sjúkrahúsþjónustu en þegar rýnt er í þau kemur á daginn að stærstur hluti þeirra snýst um byggingu nýs spítala. Nú er ég mjög fylgjandi byggingu nýs spítala, ég tek það fram. En þá þurfum við að spyrja: Hvað fer þá í raunaukningu í rekstri? Þá koma allt aðrar tölur í ljós eða 338 milljónir í raunaukningu til almenns reksturs á árinu 2018 frá því sem er á yfirstandandi ári sem er langt frá því að mæta því sem til að mynda Landspítalinn hefur bent á að sé uppsöfnuð þörf til rekstrar og tækjakaupa og annars stofnkostnaðar. Ég spyr mig hvort það sé ástæðan fyrir því að meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að skipuð verði einhvers konar pólitísk stjórn yfir Landspítalann. Er það vegna þess að stjórnendur spítalans hafa verið jafn öflugir og raun ber vitni við að benda á þá stöðu sem er á spítalanum?