146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:11]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég get tekið undir lokaorðin þar, ég vona að þessi áætlun verði felld í þinginu. Við Framsóknarmenn vorum í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili og lögðum fram fjármálaáætlun sem hv. þingmaður gagnrýndi nú allnokkuð á sínum tíma. Ég hjó eftir því í máli hv. þingmanns þar sem vísað var til þeirrar ágætu fjármálaáætlunar, þar sem þó var von um að framhaldsskólanum yrði gefinn möguleiki á að fá ávinninginn af styttingu starfstímans og þá fjármuni sem þar munu sparast. Þeir virðast vera horfnir nú þegar Viðreisn og Björt framtíð eru komin í samstarf við sama flokk. Það sama á við um stefnu í Vísinda- og tækniráði og reyndar á fleiri stöðum.

Þetta er kannski dæmi um að það skiptir máli hverjir stjórna og hvaða sýn flokkar hafa. Ég vildi heyra álit hv. þingmanns á því. (Forseti hringir.) Við Framsóknarmenn höfum lagt áherslu á það. Mig langar jafnframt að heyra hvert álit hv. þingmanns er á því hvað sé alvarlegast í fjármálaáætluninni eða hvað stendur ekki í henni.