146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:14]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er það sama og ég hafði tekið eftir, stefnuleysi, metnaðarleysi í menntamálum og eins í málefnum er varða nýsköpun og rannsóknir, sem birtist m.a. í því að áður var forsætisráðherra í forsvari fyrir Vísinda- og tækniráð. Hann er það ekki lengur. Það er vísbending um að þessi ríkisstjórn hafi engan sérstakan áhuga á þeim málaflokki.

En það sem ég hef haft mestar áhyggjur af, fyrir utan að það er sýnilegt metnaðarleysi í málaflokki sem skiptir framtíðina hvað mestu máli, er að ríkisstjórnin segist leggja allar sínar áherslur á heilbrigðismálin. En aukningin er sáralítil og stendur hvergi nærri undir þeim væntingum sem þar eru. Í samgöngumálum skila menn bara auðu. Ríkisstjórn sem segist ekki vera tilbúin að hækka skatta ætlar samt sem áður að hækka skatta á þá sem keyra um vegina, (Forseti hringir.) til þess að fjármagna vegaframkvæmdir, reyndar hér á suðvesturhorninu en ekki úti um land, sem væri kannski betra tækifæri. Mér finnst alvarlegast í þessari fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar að þar birtist athafna- og metnaðarleysi (Forseti hringir.) til að bregðast við þeim vanda sem uppi er í samfélaginu.