146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:38]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir ræðu hennar. Hún réttilega sagði að þetta væri umfangsmikið efni og erfitt að fara yfir alla málaflokka á stuttum tíma. Hv. þingmaður ræddi sérstaklega heilbrigðismálin. En mig langar þó að spyrja um aðra málaflokka sem heyra undir hv. velferðarnefnd þar sem hv. þingmaður situr, sem varða í fyrsta lagi málefni sem lúta að húsnæðisstuðningi. Í áætluninni kemur fram að þar er dregið jafnt og þétt úr framlögum ríkisins á áætlunartímabilinu. Hv. þingmaður tók mjög virkan þátt á síðasta kjörtímabili í vinnu við húsnæðisfrumvörp sem þá urðu að lögum. Það lítur þannig út, eins og ég sé þessa áætlun, að það sem áætlað er til framlaga í t.d. stofnstyrki til leiguíbúða geti hreinlega ekki, hvernig sem maður reiknar dæmið, dugað til að standa undir þeirri augljósu þörf sem er í þessum málum. (Forseti hringir.) Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í húsnæðisstuðninginn.