146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:39]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Jú, þetta er einn af þeim þáttum sem ég gagnrýndi sem nefndarmaður í velferðarnefnd. Það er miður að sjá að draga eigi úr húsnæðisstuðningi, að það sé aðhaldskrafa á þennan málaflokk, sérstaklega eftir það sem við munum öll frá því á síðasta kjörtímabili, að þessi mál fengu afar mikinn tíma í velferðarnefnd á þeim tíma. Allir flokkar lögðust á eitt um að finna þverpólitíska sátt um nýja kerfið, bæði almennu íbúðirnar, sem byggðar eru upp á stofnstyrkjakerfinu — og það er skrýtið að sjá það núna, bara örfáum mánuðum eftir að það var samþykkt og eftir að þessi stóra þverpólitíska sátt varð, að draga eigi úr þessu kerfi. Ég hef gríðarlegar áhyggjur af því að sjá að dregið sé jafnt og þétt úr fjármögnun til málaflokksins á tímabili ríkisfjármálaáætlunar.