146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:40]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það lítur þannig út að þörfin fyrir stofnstyrki til uppbyggingar leiguíbúða sé í raun verulega vanáætluð. Mig langar að spyrja hv. þingmann, sem hefur látið sig þessi mál varða, hvort hún telji að sú fyrirætlan að draga úr húsnæðisstuðningi standi undir þörfinni þegar kemur að eftirspurn eftir leiguhúsnæði, sérstaklega í ljósi þess að í vaxtabótum eru skerðingarmörkin óbreytt. Það er heldur ekki ætlunin að bæta í þau.

Síðan langar mig að nefna annað mál sem heyrir undir velferðarnefnd, sem er fæðingarorlofið. Nú höfum við þingmenn Vinstri grænna lagt fram þingmál um lengingu fæðingarorlofs, sem fengið hefur góðar umsagnir, eftir því sem ég fæ best séð. Það er augljóslega ekki gert ráð fyrir því í fjármálaáætlun. Mig langar að spyrja hv. þingmann hver afstaða hennar sé til þess máls því að við þurfum auðvitað að huga að því hvernig við ætlum að búa hér að barnafólki til framtíðar. Menntakerfið er einn liður í því, annar liður er hvernig við búum (Forseti hringir.) að fjölskyldunum, ungu fólki með börn. Fæðingarorlofið er þar stórmál. Mig langar að spyrja hv. þingmann um afstöðu hennar.