146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:41]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Við sjáum þessa aðhaldskröfu á húsnæðisþætti ríkisfjármálaáætlunar en ég tel að erfitt verði að standa undir því samkomulagi sem gert var miðað við þær upphæðir sem settar eru fram í áætluninni. Varðandi fæðingarorlofið þá er rétt að það mál fékk gríðarlega góðar umsagnir í hv. velferðarnefnd. Því miður virðist sem það nái ekki fram að ganga þar sem stutt er orðið eftir af þinginu. Ég er mjög hlynnt því að lengja fæðingarorlof og tel það mikið hagsbótamál fyrir barnafjölskyldur í landinu. Ég verð jafnframt að minnast á annað mál sem er nátengt því en það er fæðingarorlofsmál okkar Framsóknarmanna sem er að koma til móts við foreldra sem þurfa að sækja fæðingarþjónustu fjarri heimabyggð. Mér finnst mjög sárt og erfitt að sjá að þessi mál nái jafnvel ekki fram að ganga hér og gagnrýni það í ríkisfjármálaáætlun.