146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:47]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Mig langar aðeins að byrja á því að vera í forminu og velta því upp með þingmanninum hvernig við getum gert betur en til hefur tekist í þetta sinn. Það vekur athygli að meiri hluti velferðarnefndar og umhverfis- og samgöngunefndar skilar frá sér nefndaráliti áður en fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar er skilað til okkar. Við vorum jú að biðja ítrekað um að fá sundurgreiningu á hlutunum.

Ég verð því að spyrja hvað þingmanninum finnist um það, hvort hún telji að með því séu meiri hlutarnir að sinna rannsóknarskyldu sinni og gera þetta í raun eins gagnsætt og vera ber. Mig langar líka að spyrja hvort heppilegt sé til framtíðar litið, þegar við erum ekki bara að reyna að bera saman fjárfestingar og rekstur, að við aðgreinum líka launakostnað; að hann sé settur fram sér í ríkisfjármálaáætlun vegna þess að hann er svo stór hluti, þannig að við getum séð hvað fer raunverulega til uppbyggingar reksturs hins opinbera.