146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:49]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum þessi svör. Það er af ótalmörgu að taka en mig langar, af því að ég hef bara mínútu, að spyrja aðeins út í notendastýrða persónulega aðstoð og sveitarfélögin, þann ágreining sem þar ríkir. Hvernig kemur þetta til með að þróast? Ég hef áhyggjur af því, þar sem sveitarfélögin eru nú þegar með svo margt á hinu svokallaða gráa svæði, að ríkisstjórnin geri ekki ráð fyrir því að leggja nógu mikið til málaflokksins og sérstaklega hlutfallsins gagnvart sveitarfélögunum.

Það er mikið talað um hjúkrunarheimilin. Í áætluninni kemur fram að byggja eigi fimm ný hjúkrunarheimili. Það liggur fyrir hvar þrjú þeirra eiga að vera. Var einhvern tímann rætt í nefndinni hvar hin tvö ættu að vera? Ef við erum að tala um fjárfestingaráætlun til næstu fimm ára finnst mér skipta máli hvort það hefur einhvern tímann komið fram eða hvort það verður bara ákveðið þegar allt er upp í loft. Hvers konar ákvörðunartaka verður það þá?