146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:51]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Frumvarpið um NPA, notendastýrða persónulega aðstoð, er nú hjá hv. velferðarnefnd. Í umsögn frá 2. minni hluta velferðarnefndar, frá okkur Framsóknarmönnum, er áhersla lögð á að fjármögnun verði tryggð. Það hefur komið fram að ágreiningur sé á milli ríkis og sveitarfélaga um kostnaðarskiptingu og einnig hafa komið fram áhyggjur af því hvað verði um fólk sem þarf t.d. að flytja á milli sveitarfélaga, af því að þessi fjármögnun er ekki nákvæmlega tryggð. Hvað verður um fólk sem til dæmis er búið að fá NPA-samninginn í einu sveitarfélagi en ekki í öðrum vegna þessara fjármögnunarþátta?

Það kom fram í hv. velferðarnefnd að þrjú hjúkrunarheimili eru á höfuðborgarsvæðinu. Mig minnir að eitt sé í Árborg en ég átta mig ekki nákvæmlega á því hvar fimmta heimilið á að vera. Það hefur ekki komið fram í nefndinni.