146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:23]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Hins vægar væri ágætt að fá það skýrar fram frá þingmanninum hvernig hann sér fyrir sér að hægt hefði verið að fjármagna gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu í ljósi þess að kostnaðarþátttaka sjúklinga er nokkur hér. Við sjáum það alla vega í þessari ríkisfjármálaáætlun að því miður er ekki einu sinni staðið við þau loforð sem gefin voru þegar nýtt greiðsluþátttökukerfi var samþykkt um að lækka þakið og að það væru þá breiðari bökin, við sem erum hraustari, sem tækjum eilítið meiri kostnað á okkur. Á móti myndu þeir sem eru veikastir, t.d. krabbameinssjúklingar eða aðrir sem glíma við langvinna og erfiða sjúkdóma, borga minna.

Mér þótti alltaf miður að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna skyldi ekki hafa gert auðlegðarskattinn varanlegan því að ég hafði aldrei neina trú á því að fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, hvað þá fjármálaráðherra Viðreisnar, myndi nokkurn tímann leggja fram mál um að gera auðlegðarskatt varanlegan.