146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:32]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit að þetta gerir ekki ráð fyrir neinum öðrum breytingum eins og fjölgun landsmanna og því um líku, það er ekkert annað þarna inni. En samkvæmt áliti nefndaráliti meiri hlutans er 8,8% hækkun, sem er fyrir utan stofnkostnað og það sem er utan ramma. Ég átta mig ekki á því. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en í andsvörum nú fyrr í kvöld hvað þetta hlutfall þýðir á móti launahækkunum sem er gert ráð fyrir. Þar vantar meira að segja inn þær launahækkanir út af lífeyrislækkuninni sem samþykkt var fyrir áramót. Laun áttu að hækka á móti. Það er heldur ekki gert ráð fyrir þeim launahækkunum í fjármálaáætluninni. Það eru sem sagt ekki bara þær launahækkanir sem ekki er gert ráð fyrir, ekki heldur eru þarna þær launahækkanir sem Alþingi skuldbatt sig til. Samt er prósentan lægri en þær launahækkanir sem við sáum fram á.