146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:34]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Þetta eru athyglisverð andsvör. Það er svo sem af mörgu að taka ef út í það er farið. Við horfum upp á að fækka á í löggæslu, ekki verður hægt að ráða inn á spítalana og guð má vita hvað annað, a.m.k. miðað við umsagnir þeirra aðila sem um ræðir. Ég hef ekki getað dregið það í efa miðað við önnur gögn frá ráðuneytinu.

Hv. þingmaður nefndi þegar verið var að tala um skatta og annað slíkt að t.d. hefði mátt lækka tryggingagjaldið. Vinstri græn og Samfylkingin hafa bæði lagt til ákveðna tekjuöflun. Mig langar að tala um Fæðingarorlofssjóð af því að hann hefur verið vanfjármagnaður miðað við fæðingartíðnina núna, sem ég held að sé í lágmarki og við myndum nú gjarnan vilja hækka þó að við tökum það kannski ekki að okkur, hv. þingmaður og ég. Þá spyr ég hv. þingmann hvort hann telji ekki (Forseti hringir.) vænlegra að hækka örlítið hlutdeild tryggingagjalds gagnvart Fæðingarorlofssjóði frekar en að leggja til að lækka framlög í sjóðinn.