146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:57]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að venda mínu kvæði í kross þótt margt mætti segja um þetta svar. Hv. þingmaður talaði um að verið væri að auka fjármuni í marga málaflokka. Einn málaflokkur fellur undir okkar nefnd, atvinnuveganefnd, og varðar rannsóknir. Stofnanir eins og Hafró og Matvælastofnun hafa lengi verið fjársveltar og eru í raun fjársveltar næstu árin. Það kom fram í heimsóknum viðkomandi aðila fyrir atvinnuveganefnd að annaðhvort yrði að fækka starfsfólki eða fækka verkefnum, því að það væri langt í land að þeir fjármunir sem væru áætlaðir til þessara stofnana dygðu fyrir þeim verkefnum sem þeim væru ætluð næstu árin. Hvað segir hv. þingmaður við því í ljósi þess að fyrirsjáanleiki eigi að vera til staðar og mælikvarðar og annað því um líkt á þörf stofnana? Hafa þeir mælikvarðar verið notaðir á þessar stofnanir og út af hverju er þeim þá ekki tryggt það fjármagn sem þarf?