146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:01]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gerði mér ekki grein fyrir að hv. þingmaður hafi ekki heyrt umræðuna áðan þar sem við vorum að tala um að framlög til sjúkrahúsanna séu að hækka um 8,8% en launaþróunin, sem er gert ráð fyrir í fjármálaáætlun á sama tíma, er 9%, sem þýðir að niðurskurður er í sjúkrahúsþjónustu. Til háskólanna er áætluð 7,7% umframfjáraukning, það er líka undir launaþróunarviðmiðum. Þá á eftir að taka tillit til leiðréttingar gagnvart lífeyrisréttindalækkuninni. Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Hvernig getur þetta staðist á annan hátt en að það verði niðurskurður á þessum alla vega tveimur sviðum og hvort flokkur hv. þingmanns sé tilbúinn til að skrifa undir slíkan niðurskurð?