146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:05]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér er vel kunnugt um að hagsmunaaðilar sendu okkar umsagnir þess eðlis, en við fengum líka álit frá fjármálaráði þar sem okkar færustu sérfræðingar sögðust ekki sjá neina ástæðu til þess að vera með þennan afslátt í kringum ferðaþjónustuna eða að gefa erlendum ferðamönnum afslátt af neyslusköttum. Við nýtum skattkerfið til hagstjórnar. Við notum skattafslátt til þess að stýra og reyna að hafa áhrif á hlutina. Í þessu árferði ættum við því ekki að halda áfram með þennan afslátt. En er það ekki rétt hjá mér sagt að búið sé að hætta við að hækka virðisaukaskattinn á ferðaþjónustuna á næsta ári? Er það ekki augljóst mál?

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann hvort hún hafi verið að lýsa því þegar hún var að tala um Keflavíkurflugvöll að hún væri ekki sammála því sem stendur (Forseti hringir.) í nefndarálitinu, að aðgerðin ætti að vera til þess að færa til fjárfestingar í samgöngumannvirkjum. (Forseti hringir.) Er hún ekki sammála álitinu sem hún skrifað undir?