146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:07]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf) (andsvar):

Þetta voru tvær spurningar þannig að ég veit ekki hvort ég næ að svara þeim báðum. Hins vegar, til þess að hafa það á hreinu, er það orðað með þeim hætti að við viljum að leitað verði leiða til að endurskoða áætlanir um virðisaukann, þannig að ég er ekki viss um það hvort búið sé að ákveða að hætta við það. En hvernig það endar síðan í fjárlögum í haust verður að koma í ljós.

Ég er tilbúin til þess að taka undir varðandi Keflavíkurflugvöll, en það sem ég er að kalla eftir er að fá umræðuna. Ég vil fá sérfræðinga og helst erlenda sérfræðinga til að greina þá stöðu og kosti og galla, ég vil ekki loka á það án þess að hafa fengið upplýsingar um það. Eins og staðan er í dag sé ég ekki ástæðu til þess að breyta því, en ég er til í umræðuna.