146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:12]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að fylgja eftir umsögn minni til fjárlaganefndar frá allsherjar- og menntamálanefnd. Í upphafi umsagnarinnar nefni ég að að mörgu leyti sé ég ekki ósátt við umsögn meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Hún er viðamikil og fer ágætlega yfir þau málasvið sem heyra undir nefndina og fer í gegnum þau markmið sem sett eru í fjármálaáætluninni, gestakomur og helstu atriði sem meiri hlutinn vildi benda á. Hins vegar voru ákveðin atriði sem ég var ekki alveg sátt við sem komu fram í umsögn meiri hlutans og þótti því ástæða til að senda eigin umsögn til nefndarinnar.

Við fengum beiðni frá fjárlaganefnd um að nefndin myndi fjalla um eftirfarandi málefnasvið: Dómstólar, almanna- og réttaröryggi, réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála, menning, listir, íþróttir og æskulýðsmál, fjölmiðlun, framhaldsskólastig, háskólastig og önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og menningarmála.

Við umfjöllun málsins fengum við á okkar fund hæstv. ráðherra Kristján Þór Júlíusson, hæstv. ráðherra Sigríði Á. Andersen, Auði B. Árnadóttur, Ásdísi Jónsdóttur og Gísla Þór Magnússon frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Ingilín Kristmannsdóttur og Pétur Fenger frá innanríkisráðuneytinu, Guðríði Arnardóttur og Steinunni Ingu Óttarsdóttur frá Félagi framhaldsskólakennara, Baldur Gíslason, Hjalta Jón Sveinsson og Stein Jóhannsson frá Skólameistarafélagi Íslands, Jón Atla Benediktsson og Guðmund R. Jónsson frá Háskóla Íslands, Fríðu Björg Ingvarsdóttur frá Listaháskóla Íslands, Ara Kristin Jónsson frá Háskólanum í Reykjavík, Eyjólf Guðmundsson frá Háskólanum á Akureyri, Erlu Björk Örnólfsdóttur frá Háskólanum á Hólum, Björn Þorsteinsson frá Landbúnaðarháskóla Íslands, Hafstein Sæmundsson frá Háskólanum á Bifröst, Kristínu Völundardóttur og Helgu Jóhannesdóttur frá Útlendingastofnun, Pál Winkel og Jakob Magnússon frá Fangelsismálastofnun, Söndru Margréti Sigurjónsdóttur og Auðun F. Kristinsson frá Landhelgisgæslu Íslands, Jón F. Bjartmarz og Jónas Inga Pétursson frá Ríkislögreglustjóra og Helgu Þórisdóttur og Vigdísi Evu Líndal frá Persónuvernd.

Ég vil nota tækifærið til að segja, í ljósi þess að ég hef gert athugasemdir við hvernig allsherjar- og menntamálanefnd hefur unnið í ákveðnum málum, að ég tel að nefndin hafi unnið vel í umfjöllun sinni varðandi fjármálaáætlunina. Það var mjög mikilvægt fyrir okkur að fá þessa gesti sem komu með mjög gagnlegar ábendingar um hvað mætti betur fara í áætluninni.

Það skal hins vegar viðurkennast, og þar tekur maður að einhverju leyti undir þær athugasemdir sem koma fram í meirihlutaáliti fjárlaganefndar, að athugasemdir eða ábendingar einstakra stofnana voru að mörgu leyti hefðbundnar og eins og við þekkjum úr umræðunni um fjárlögin. Við sjáum að sveitarfélögin, Stjórnarráðið og mjög margir eru að átta sig á þessu nýja lagaumhverfi en það var töluvert áberandi varðandi athugasemdir og umsagnir sem komu frá þessum aðilum, jafn mikið og þeir vönduðu sig, að þeir gerðu ekki beint athugasemdir við þau markmið eða aðgerðir sem koma fram í áætluninni heldur voru meira að ræða almennt um rammann. Það er eitthvað sem ég vonast til að við sjáum á næstu árum í auknum mæli í umsögnum eða athugasemdir umsagnaraðila að menn fari markvisst í gegnum þau markmið sem koma fram í áætluninni og geri athugasemdir við það hvort þeir telji að þau séu gagnleg eða góð eða eitthvað sem er möguleiki á að ná fram með þeim ramma eða aðgerðum sem lagðar eru til í áætluninni.

Jafnframt voru gerðar athugasemdir, og það var eitthvað sem ég held að allir nefndarmenn hafi verið sammála um að væri mjög mikilvægt, sem sneru að því að fastanefndir, fagnefndir, kæmu að vinnunni við fjármálaáætlunina og að það þyrfti að styrkja nefndasvið skrifstofu Alþingis. Það er hins vegar ekki ný umræða. Ég hef nefnt það við forseta Alþingis að það væri mjög ánægjulegt ef hún myndi skilja það mark eftir sig sem forseti alls Alþingis að huga að því að stjórnarandstaðan fengi sérstaka nefndarritara sem ynni fyrst og fremst fyrir stjórnarandstöðuna. Ég veit að þetta hefur verið rætt reglulega í gegnum tíðina en því miður ekki gengið eftir. Það var eitthvað sem ég reyndi að gleyma ekki þegar ég var sjálf komin í stjórn, hversu ólík starfsaðstaðan er fyrir annars vegar stjórnarþingmenn og ráðuneytin og svo stjórnarandstöðuna. Það kemur að einhverju leyti fram varðandi vinnu við fjármálaáætlun og hvernig við getum betur undirbúið okkur. Við erum með gott starfsfólk hér en það er hins vegar takmarkað hversu mikið það kemst yfir.

Ég get jafnframt tekið undir þær athugasemdir sem hafa komið fram í umræðunni um mikilvægi þess að bæta framsetningu fjármálaáætlunar, ekki hvað síst framsetningu á tölum. Við eyddum t.d. töluverðum tíma í að tala um þróunina á fjölda nemenda innan t.d. framhaldsskólakerfisins. Það hefði verið mjög gott ef legið hefði fyrir betri greinargerð í fjármálaáætlun sem fjármálaráðherra mælti fyrir um hverjar væru forsendurnar fyrir þeirri spá sem byggt er á. Ég sé að meiri hluti fjárlaganefndar tekur undir þetta. Menn hafa áhyggjur af því að gert sé ráð fyrir að stytting náms til stúdentsprófs muni ekki skila sér jafn hratt í sparnaði og gert er ráð fyrir í forsendum áætlunarinnar.

Eitt stóru málanna sem voru afgreidd á þingi á síðasta kjörtímabili var nýtt dómstig, Landsréttur. Það var töluvert rætt um hvort við værum nægilega undirbúin fyrir þessa miklu breytingu. Það er líka ábending sem ég held að væri mjög mikilvægt að huga að varðandi bæði fjárlögin og framlagningu fjármálaáætlunar í framtíðinni. Þegar menn taka ákvörðun um aðhald á einstökum málefnasviðum getur verið erfitt að fella laun dómara undir aðhaldsmarkmiðin, en þau eru lögbundin. Það er kjararáð sem ákveður laun og önnur starfskjör dómara. Meiri hlutinn bendir á þetta og ég tek undir það, það væri mikilvægt að skoða þetta fyrirkomulag þegar kjararáð kemur að málum. Það gildir væntanlega um fleiri aðila sem falla undir kjararáð.

Það eru líka ábendingar sem ég vil taka sérstaklega undir og geri í mínu áliti sem snúa að löggæslu. Við höfum á undanförnum árum bætt við fjármunum þegar kemur að verkefnum lögreglunnar. En álagið hefur aukist mjög mikið. Það hefur svo sannarlega reynt á lögregluna eins og svo margt annað vegna m.a. fjölda ferðamanna, erlends vinnuafls, fjölgunar hælisleitenda. Það var farið í miklar breytingar þegar lögregluembættum var fækkað og þau aðskilin frá sýslumannsembættum. Það átti að styrkja rekstrarumgjörð lögreglunnar en við eigum eftir að sjá hvort það markmið næst.

Ég hefði mjög gjarnan viljað sjá meiri áherslu og skýrari aðgerðir um hvernig við getum unnið gegn ofbeldi í samfélaginu. Núverandi ríkisstjórn, eða fjórir ráðherrar hennar, hafa að fyrirmynd fyrri ríkisstjórnar tekið ákvörðun um að undirrita sameiginlega yfirlýsingu um aðgerðir gegn ofbeldi. Það hefur legið fyrir í þingmálaskrá hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra að leggja fram aðgerðaáætlun um hvernig sé hægt að vinna gegn ofbeldi í samfélaginu. Ég á hins vegar erfitt með að sjá að einhverjir viðbótarfjármunir séu áætlaðir í þau verkefni. Við í nefndinni höfðum fundað með lögreglunni um t.d. öryggi í miðborginni eftir hið hræðilega atvik þegar ung stúlka var myrt ekki fyrir löngu síðan. Þar kom fram í samtölum við lögregluna að það væri mikilvægt að efla viðveru lögreglunnar í miðborg Reykjavíkur og bæta við sérstökum rannsakanda í hóp lögreglunnar sem fylgdi eftir verkefnum. Það kom einnig fram að unnið hefði verið að auknu samstarfi við skemmtistaðina miðsvæðis. Það þyrfti að sjálfsögðu að tryggja mannafla í það. Ég hefði talið að það sem ég hef nefnt hér væri ástæða til að taka fram að væru aðgerðir sem tengdust því hvernig við ætlum að vinna gegn ofbeldi.

Ég hef líka haft verulegar áhyggjur af því að Stígamót hafa stigið fram og bent á að komum á neyðarmóttökuna hefur fjölgað og það sem maður hefur verulegar áhyggjur af er að talsmenn Stígamóta hafa bent á að tilvikin eru grófari. Að einhverju leyti tengja menn það við klámvæðinguna. Það er svo sannarlega nóg af verkefnum.

Við sjáum líka á tölum, þegar ég hef spurt um tíðni ofbeldisbrota gagnvart börnum, að tilkynningum vegna sálræns, andlegs eða líkamlegs ofbeldis gagnvart börnum hefur fjölgað gífurlega. Það hefur verið tengt við nýja verkferla. Lögreglan hefur almennt verið að vinna öðruvísi í heimilisofbeldismálum og gert sér betur grein fyrir hver áhrif ofbeldis í nánum samböndum eru á börnin okkar. Þetta eru allt verkefni sem því miður eru ekki nefnd í fjármálaáætlun, en eru mjög mikilvæg. Hvert og eitt verkefni kostar ekki svo mikið en þau geta skipt svo miklu máli fyrir einstaklingana og gert okkar góða samfélag enn öruggara og betra.

Sérstakur fundur var haldinn með Persónuvernd. Þar birtust einfaldlega mjög miklar áhyggjur forstöðumanna Persónuverndar af stöðu stofnunarinnar, af öllum þeim nýju verkefnum sem verið er að fela henni. Miðað við þennan ramma myndi ég telja nokkuð ljóst að við innleiðum ekki nýja Evrópulöggjöf á sviði persónuverndar á næstunni, nema þá bara til málamynda. Við munum ekki geta fylgt henni eftir miðað við þann ramma sem stofnunin er með núna. Við sjáum að borgararnir, íbúar þessa lands, eru æ betur upplýstir um mikilvægi persónuverndar. Þar af leiðandi er mikið af verkefnum. Það er mjög brýnt að Persónuvernd geti brugðist við og leiðbeint og komið á framfæri nauðsynlegum upplýsingum, eins og hún á að gera, um hvernig við getum tryggt betur persónuvernd einstaklinganna.

Það sem ég hef hins vegar mestar áhyggjur af og er ósáttust við í nefndaráliti meiri hlutans í fjárlaganefnd er hversu lítið er fjallað um útlendingamálin og að ekki skuli gerðar skýrari tillögur um hvað við þurfum að gera til að tryggja að við náum þeim markmiðum, sem nefndin að vísu ítrekar, um mikilvægi þess að tryggja skilvirka og hraða málsmeðferð í umsóknum hælisleitenda þar sem mannúðarsjónarmið eru höfð að leiðarljósi.

Með nýjum lögum um opinber fjármál er ekki lengur gert ráð fyrir fjáraukalögum. Við höfum mjög oft notað fjáraukalögin til að bregðast við og lögð hafði verið aukin áhersla á það á síðustu árum að undir þau félli aðeins ófyrirséður kostnaður. Það hefur svo sannarlega átt við um þróun útlendingamála á undanförnum árum. Það er að mínu mati mjög erfitt, og það er eitthvað sem Útlendingastofnun hefur bent á, að sjá hvernig í ósköpunum áætlun fjármálaáætlunar mun standast um að fjöldi hælisleitenda verði árlega um 700. Maður sér einfaldlega ekki á hvaða forsendum fjármálaráðuneytið byggir á með því að koma fram með þessa tölu. Árið 2016, við erum ekki að tala um framtíðina hér heldur ár sem er liðið, barst þvílíkur fjöldi umsókna sem við höfum aldrei séð áður um alþjóðlega vernd. Þá voru fram lagðar umsóknir orðnar 1.132. Þegar við horfum síðan á spár fyrir þetta ár þá kom fram fyrir nefndinni að umsóknir sem berast fyrstu þrjá mánuði hvers árs gefa ákveðna vísbendingar um heildarfjölda umsókna það árið. Fjöldi umsókna fyrstu þrjá mánuði ársins 2016 var 136. Fjöldi umsókna fyrstu þrjá mánuði ársins 2017, árið í ár, var 224, sem svarar til 65% aukningar. Ef sambærileg aukning verður árið 2017 mun fjöldi umsókna verða um 1.870. Því til viðbótar hefur einnig orðið aukning á öðrum verkefnum Útlendingastofnunar og við sjáum að tölfræði fyrsta ársfjórðungs bendir til a.m.k. 30% fleiri umsókna um dvalarleyfi en árið 2016. Ég þurfti að vísu að tvítékka á þessum tölum og bað nefndarritara okkar sérstaklega um að athuga hvort þetta gæti staðist. Ef fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd verður um 2.000 í stað þeirra 700 sem gert er ráð fyrir þarf að hækka framlög til málaflokksins til samræmis um 7 milljarða í staðinn fyrir þá 2 milljarða sem lagt er til að framlögin hækki um. Það er bara ekki til svigrúm til þess. Við vitum að það hefur ekki verið mikið um peninga í gamla innanríkisráðuneytinu. Ég veit ekki til þess að þetta svigrúm sé til staðar hjá dómsmálaráðuneytinu. Það er þá veruleg hætta á að taka þurfi fé frá öðrum brýnum verkefnum til að mæta þessu. Það er verið að reyna að byggja upp ákveðna varasjóði til að bregðast við óvæntum útgjöldum þannig að menn eru með varasjóði innan einstakra ráðuneyta innan málefnasviðanna. Það er hins vegar spurning hvort menn geri almennt ráð fyrir þeim tölum sem ég nefndi hér.

Okkar nýju lög byggjast á fyrirmyndum frá Norðurlöndunum og þar eru gerðar fjármálaáætlanir með sambærilegum hætti og við gerum hér nú. Við fengum þær upplýsingar í nefndinni að fjársveiflum vegna mikils fjölda hælisleitenda hafi annars staðar, t.d. í Noregi, verið mætt með málefnasamningi á milli þingsins og fagráðuneytis, þannig að Útlendingastofnun myndi þá hafa aðgengi að fjármunum utan fjármálaáætlunarinnar ef upp kæmu sveiflur á borð við þær sem geta orðið í fjölda umsókna, eða varasjóðir eru hafðir mun ríflegri en hér er lagt til. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við hunsum ekki slíkar viðvaranir sem koma frá okkar stofnunum og að óvissa í málaflokknum verði ekki látin bitna á öðrum verkefnum.

Fram kom í andsvari fyrr í dag þegar ég spurðist fyrir um þetta að erindi hefði verið sent til ráðuneytisins þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvernig staðan væri þegar kæmi að fjölda umsókna um alþjóðlega vernd. Ég held að það sé alveg skýrt að fjárlaganefnd verður að halda áfram að fjalla um þetta.

Fyrirgefðu, forseti, tími minn bara rýkur áfram. Ég óska eftir að fá að fara aftur á mælendaskrá því ég er ekki byrjuð á að tala um framhaldsskólastigið að neinu ráði og háskólastigið og hvað þá um þjóðkirkjuna.

En þetta er eitt af því sem ég ræddi strax við fyrri umr. því þá hafði ég reynt að leita að upplýsingum um hvar væri fjármunir (Forseti hringir.) til að taka á móti kvótaflóttamönnum og síðan sjáum við að það virðist stefna í að það þurfi að bæta í líka varðandi hælisleitendur. Þar sem þetta var eitt af áherslumálum sem fjármálaráðherra kynnti varðandi fjármálaáætlunina held ég að sé mjög mikilvægt að tekið sé tillit til þessara athugasemda.