146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:34]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir andsvarið. Eins og ég sagði í lok ræðu minnar var ég varla byrjuð að ræða framhaldsskólastigið. Við höfum eytt töluverðum tíma frá því þingið hófst í að ræða stöðu framhaldsskólanna. Ég átti hér í nokkru samtali við hæstv. menntamálaráðherra um t.d. framtíð verk- og starfsnáms þar sem ég ræddi skýrslu Ríkisendurskoðunar um hvað þyrfti að gera til að efla það og fylgja eftir stefnumörkun sem þó hafði verið gerð. Ég skal viðurkenna að mér brá töluvert við að sjá síðan þessar hugmyndir varðandi sameiningar þessara tveggja skóla því að ekki kom orð, ekki bofs, fram um það stuttu áður í þeirri umræðu hér í þingsal. Þetta eru miklar breytingar á milli þeirrar fjármálaáætlunar sem var samþykkt fyrir kosningar og þeirrar núna eftir kosningar. Við sjáum hins vegar að meiri hluti fjárlaganefndar er að bregðast við þessum athugasemdum. (Forseti hringir.) Það er hins vegar leitt, og ég hefði talið að það væri eitthvað sem menn ættu að geta verið sammála um, að nefndin skuli ekki hafa getað komið sér saman um að flytja breytingartillögu í samræmi við það sem meiri hluti fjárlaganefndar er þó að tala um, að draga þetta til baka.