146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:37]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyrði einmitt af þessu og las um þetta. Mér fannst þetta nú bara fyndið og sýna að það er fullkomin uppgjöf í liði stjórnarliða, eftir mjög stuttan tíma. Við höfum lítið séð til heilbrigðisráðherra. Þarna virðist koma einhver tillaga um að fara að dreifa álaginu af ráðherranum. Ég held að það væri kannski nær að hann færi að mæta hingað í þingið, svara spurningum og færa rök fyrir máli sínu. Það hafa aðrir heilbrigðisráðherrar gert, m.a. sem tilheyrt hafa mínum flokki. Síðan höfum við alveg séð líka, núna nýverið í ummælum forstjóra Isavia, að það virðist ekki alltaf skipta miklu máli þótt einhver stjórn sé yfir viðkomandi stofnunum eða fyrirtækjum.