146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:38]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta yfirferð yfir þá málaflokka sem hún fór yfir, sérstaklega þá sem heyra undir þá nefnd sem hv. þingmaður situr í. Þetta er víðfeðmt mál og fyrir okkur sem ekki sitjum í nefndunum og höfum ekki hitt gesti eða heyrt það sem býr að baki verður að játast að þetta er oft dálítill frumskógur. Þar sem ég veit að hv. þingmaður er ærlegur og hefur engra hagsmuna að gæta í þessu langar mig að nýta þetta tækifæri til að spyrja aðeins betur út í löggæslumálin sem komið var ágætlega inn á hér. Sannast sagna skil ég hvorki upp né niður í þeim efnum. Hér hafa stjórnarliðar ýmist talað um að verið sé að bæta í víða, en svo berast fregnir af því að þetta muni jafnvel þýða fækkun lögreglumanna. Getur hv. þingmaður í þessu örstutta andsvari sínu komið aðeins betur inn á hvernig hún sér þróun t.d. bara löggæslumála miðað við núverandi tillögu til fjármálaáætlunar?