146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:39]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Það skal viðurkennast að alls ekki gafst nægur tími til þess í ræðunni að fara í gegnum löggæsluna. Eins og ég hef þegar óskað eftir við forseta mun ég halda áfram að ræða um þessa málaflokka sem eru mjög viðamiklir og mikilvægir. Mestu fjármunirnir fara í þetta, fyrir utan náttúrlega málefni sem velferðarnefnd hefur með að gera. Ekki er langt síðan farið var í breytingar varðandi menntun lögreglumanna. Það mun eflaust hafa áhrif á mönnunina. Eins og ég fór í gegnum hafa bæst við verkefni þarna. Breytingar hafa orðið; aukin þensla, ferðamenn, fjölgun hælisleitenda, sem ég hef líka nefnt, það eru allt verkefni sem auka álag á lögregluna. Og eins og aðrar stofnanir þurfti lögreglan að taka á sig niðurskurð eftir hrun sem hefur reynst henni erfiður. Það sem verið hefur að gerast á undanförnum árum er að menn hafa reynt að byggja upp aftur. Það er sífellt vísað í það. Við fáum inn áætlanir (Forseti hringir.) sem við eigum eftir að fjalla um sem snúa að löggæslunni. En það þarf náttúrlega að fjármagna þetta einhvern veginn.