146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:44]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé bara mjög góð ábending hjá hv. þm. Loga Einarssyni. Það væri ástæða til að menntamálaráðherra væri viðstaddur og hlustaði á ábendingar sem snúa að málefnasviði hans. Þetta er verulegt áhyggjuefni. Við höfum bent á mikilvægi þess að nefndin fjalli um kennaraskort. Þetta vandamál er hins vegar ekki bara bundið við Ísland. Ef maður les skýrslur um það nám sem þörf væri á að fjölga nemendum í, eins og t.d. í Svíþjóð þar sem talað er um menntun framtíðarinnar þar sem væru mestir atvinnumöguleikar, þá er kennaramenntun nefnd þar. Svíar tala líka um umönnunarstörf; hjúkrun og allt sem tengist heilbrigðisþjónustu og umönnun fólks, bæði á framhalds- og háskólastigi. Svo tala þeir um verk- og starfsnám, tækninám, bæði (Forseti hringir.) á framhalds- og háskólastigi. Þetta væri eitt af því sem við ættum að fjalla hér um og fá skýra stefnumörkun um frá ríkisstjórninni.