146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:53]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég er að hugsa um að byrja á að hrósa hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir að sitja undir þessari umræðu og vera í salnum. Jafnvel þótt líkamstjáning hans sé ekki tilþrifamikil er það virðingarvert að hæstv. ráðherra (Gripið fram í.) sýni þessari umræðu þann sóma. Það mættu ýmsir aðrir ráðherrar taka hann sér til fyrirmyndar.

Ég verð að segja að þessi ríkisfjármálaáætlun og þróun mála á grundvelli laga um opinber fjármál hefur öll valdið mér miklum vonbrigðum og vaxandi. Ég var áhugamaður um það sem fjármálaráðherra á minni tíð, og áfram sem maður sem lengi hefur glímt við ríkisfjármál og efnahagsmál, að við værum að færa þessi mál til betri vegar. Sumpart erum við vissulega að því með löggjöfinni. En því miður hefur ekki tekist vel til að öllu leyti.

Menn keyrðu fram í ágreiningi allt of stífar fjármálareglur þegar gengið var frá lögunum að lokum og eru nú fangar þeirra reglna. Eins og það væri ekki nóg greip núverandi ríkisstjórn til þess ráðs að setja viðbótargaddavírsgirðingu inn í þetta regluverk með sérstöku útgjaldaþaki. Þannig mega útgjöld hins opinbera í heild aldrei fara yfir 41,5% af vergri landsframleiðslu, rétt yfir þeim mörkum sem þau liggja á þessu ári. Það er ekkert svigrúm skilið eftir.

Síðan kemur þessi mikla og margboðaða fjármálaáætlun til fimm ára. Hún veldur djúpstæðum vonbrigðum, bæði hvað innihaldið snertir og framsetninguna. Það hafa margir þingmenn komið inn á og margir umsagnaraðilar gagnrýnt. Ég fullyrði: Það er ekkert í lögunum um opinber fjármál, ekkert í þessari aðferðafræði áætlana til fimm ára og ramma sem kallar á að fjármálaáætlun sé sett fram með þessum hætti. Ekki neitt. Það er beinlínis gert erfitt að átta sig á innihaldinu og brotnar næstum allar góðar reglur í bókhaldi og framsetningu upplýsinga um fjármál, í sjálfri fjármálaáætlun ríkisins, ríkisstjórnarinnar, til næstu fimm ára. Eða síðan hvenær var það góð latína að grauta saman öllum tölum í fjárfestingum, húsbyggingum, viðhaldi húsnæðis, rekstrarkostnaði, sérstökum verkefnum? En þetta er gert.

Og það þurfti að draga með töngum út úr ráðuneytunum, sérstaklega fjármálaráðuneytinu, upplýsingar um sundurliðanirnar sem fengust í sumum tilvikum en öðrum ekki. Við í velferðarnefnd báðum velferðarráðuneytið á fyrsta fundi um að fara og sækja sundurliðaðar upplýsingar fyrir okkur. Hvað í sjúkrahúsaliðnum er til nýbygginga? Hvað er til tækjakaupa? Hvað er í þegar afmörkuð sérverkefni til að eyða biðlistum eða innleiða ný lyf eða hvað það nú er? Við vildum geta séð hvað væri eftir til rekstrar. Þær upplýsingar komu aldrei.

Enn þá verra var að átta sig á liðnum um hjúkrunarheimili. Þar eru engar og voru aldrei neinar upplýsingar veittar um hvað er í stofnkostnað, viðhald og hvað er í rekstur. Fljótandi tölur um að til standi að byggja þrjú en á sumum stöðum fimm hjúkrunarheimili og að fjölga eigi rýmum sums staðar um 261 og sums staðar um 290 rými á næstu fimm árum, engar innstæður í raun og veru fyrir því. Þetta er ómögulegt.

Ég verð líka að segja að meðferð þingsins markaðist að sjálfsögðu af allt of skömmum tíma. Því verður að breyta. Það verður að breyta tímataktinum í þessu, eigi að vera vinnandi vegur að afgreiða þessa hluti sómasamlega. Áætlunin verður að koma fram í síðasta lagi 1. mars þannig að Alþingi hafi að lágmarki þrjá mánuði til að vinna við hana. Og ekkert er því til fyrirstöðu að gera það. Að sjálfsögðu ekki. Ráðuneytin þurfa ekkert fram í apríl til að koma þessu saman eftir að verklagið er komið í gang. Það er þá frekar að það eigi að ganga á tímann við fjárlagagerðina að hausti en að kasta til höndunum við þetta verk.

Margar umsagnir gagnrýndu þetta harðlega. Ég held að engum hafi dulist að vonbrigðin helltust yfir Alþingi úr öllum áttum þegar þessi áætlun kom fram. Menn fóru að reyna að átta sig á því hvað biði þeirra næstu fimm árin ef þetta yrði veruleikinn. Heilbrigðisgeirinn, Landspítalinn, háskólarnir, framhaldsskólarnir, lögreglan, Landhelgisgæslan — nefnið mér einhvern sem var ánægður. Það hefur þá farið fram hjá mér. Nema stjórnarliðið, sérstaklega Viðreisn og Björt framtíð. Af einhverjum undarlegum ástæðum hefur þessi sjálfskvalarleiðangur þeirra inn í þessa ríkisstjórn leitt þau inn á þá braut að æsa sjálf sig upp í ánægjunni þegar hver einasti maður sér hvers konar skipbrot þetta er hjá þessum flokkum. Að skrifa svona gagnrýnislaust upp á hægri stefnu Sjálfstæðisflokksins.

Auðvitað liggja mistökin víðar og lengra aftur í tíðina. Nú verða bara vinir mínir í Framsóknarflokknum að fá að þola það, taka þá bara fyrir eyrun á meðan. [Hlátur í þingsal.] Stór hluti vandans liggur í stórfelldum mistökum síðustu ríkisstjórnar sem lagði af stað gömlu nýfrjálshyggjugötuna: Niður með tekjuöflun ríkisins og að þrengja að velferðarkerfinu og samneyslunni. Seðlabankinn metur það svo að slökun ríkisfjármálanna núna á þremur árum, 2015, 2016 og 2017 á yfirstandandi ári, séu 2,5% af vergri landsframleiðslu. Það er engin smáfjárhæð. 60–65 milljarðar kr. Og fyrri árin tvö — þetta vitum við vel sem vorum hér á þingi þau ár — var þessi slökun að uppistöðu til á tekjuhliðinni, þ.e. aðhald opinberu fjármálanna minnkaði vegna þess að dregið var úr tekjuöflun og þeir fjármunir settir í umferð úti í hagkerfinu. Þannig verður það til að aðhald ríkisfjármálanna í hagkerfinu minnkar. Við hvaða aðstæður? Þegar hagkerfið er að sigla upp á topp hagsveiflunnar. Hvenær hefur þetta gerst áður? Á árunum fyrir hrun. Þetta eru nákvæmlega sömu mistökin og rannsóknarnefnd Alþingis gagnrýnir mjög harkalega í niðurstöðum sínum í skýrslunni 2010 og segir að skattalækkanirnar árin fyrir hrun hafi verið olía á eld hagkerfis sem hvort sem er var að kvikna í vegna stóriðjufjárfestinganna sem búið var að troða inn í hagkerfið o.s.frv.

Þá má spyrja: Af hverju er ekki kviknað í núna? Af hverju er ekki komið hrun? Það er vegna þess að með okkur hefur það lagst að raungengið hefur styrkst jafnt og þétt á þessum tíma. Framan af tímanum, einkum á árunum 2015 og inn árið 2016, fluttum við inn verðhjöðnun frá umheiminum í formi lækkaðs olíuverðs og lækkaðs verðs á hrávöru. En nú mun þetta ekki leggjast með okkur lengur, eða ég ætla rétt að vona að það geri það ekki. Því hvert förum við ef raungengið ætti áfram að halda verðbólgunni niðri með því að styrkjast næstu misserin? Hvar myndi það enda? Nei, nú er búið að tæma úrræði þessara tækja. Hvað á þá að halda niðri þrýstingnum í hagkerfinu þegar búið er að gera svona afdrifarík mistök, sem er nú nógu slæmt, og á að halda áfram? Það á nefnilega að halda þeim áfram, því miður. Það er það hroðalega.

Þetta veldur margháttuðum vanda í leiðinni í rekstri samfélagsins fyrir utan hvað þetta er hættulegt hagstjórnarlega. Þetta þýðir til dæmis að ramminn er svo þröngur, það er búið að taka það mikið af hinum traustu tekjustofnum ríkisins út úr myndinni að menn eru í stökustu vandræðum. Og menn ljúga saman áætlun af þessu tagi út á hreinar bjartsýnisspár um áframhaldandi umtalsverðan hagvöxt út áætlunartímann. Gangi það ekki eftir, eða ekki nema að hluta, er allt í uppnámi. Þá er þessi áætlun algerlega hrunin til grunna, jafn mögur og hún þó er. Stjórnarliðar koma og blása út tölur um mikla aukningu nafntalna í útgjöld. Þeir segja: Já, það er svo gríðarleg aukning inn í þennan málaflokkinn og hinn. Kemur nú í ljós að að mestu leyti er það blásið út með fjárfestingum, t.d. í heilbrigðisgeiranum, sjúkrahúsageiranum. En er það góður mælikvarði að segja: Við erum að auka verulega til málaflokkanna inn í framtíðina í áætlun sem byggir á umtalsverðum hagvexti? Þá segi ég á móti: Nema hvað? Átti kannski ekki einu sinni að leyfa málaflokkunum að halda sinni hlutdeild í vaxandi þjóðartekjum? Ef það verður nú veruleikinn og við verðum svo heppin, ef sá einstæði atburður gerist í Íslandssögunni að lengsta hagvaxtarskeið lýðveldistímans, sem það er þegar orðið, framlengist í ein fimm ár í viðbót? Það eru meiri undrin og stórmerkin ef það á eftir að gerast án nokkurra vandræða. Og jafnvel ef einhvern tíma kemur að einhverjum slaka þá á það jú eins og venjulega að verða algerlega mjúk snertilending. Þetta eru allt sömu gömlu frasarnir.

Muniði eftir talinu hérna 2007 um snertilendinguna sem var þá fram undan í hagkerfinu? Þegar þeir stóðu hérna snillingar íhaldsins og sögðu að þetta væri allt í fína lagi því að fram undan væri mjúk snertilending í hagkerfinu. Var það snertilending sem kom í október 2008? Nei, mig minnir að það hafi verið eitthvað annað.

Hér stóð forsætisráðherra 2006 og sagði að það væri öfundsvert að vera forsætisráðherra á landi eins og Íslandi þar sem gengi svona stórkostlega vel. Og mér finnst í raun sama andvaraleysið meira og minna vera að læðast að okkur núna.

Skoðum þetta aðeins betur. Á bls. 16 í þessari tillögu er mjög fróðlegt línurit sem hefur slæðst þar inn fyrir mistök því að menn hafa örugglega ekki ætlað að sýna á þessi spil viljandi. Þar er sýnt hvernig þróun samneyslunnar verður út áætlunartímann. Samneyslan er mjög mikilvægur mælikvarði í þessu, hún er það sem við höfum til hinna eiginlegu velferðarútgjalda og tilfærslna að frádregnum fjárfestingum og öðrum þáttum sem ekki flokkast þar með. Hvert á hún að fara á áætlunartímanum? Niður fyrir 25 ára meðaltal. Niður fyrir 23% af vergri landsframleiðslu. Hvernig komst hún þangað? Og hvenær? Hún komst ekki í 23% fyrr en upp úr aldamótum. Það var vegna þess að ef við tökum útgangspunktinn 1980 var velferðarsamfélagið á Íslandi ekki svipur hjá sjón hjá því sem það er í dag. En það á sem sagt að fara með hlutfall samneyslunnar af vergri landsframleiðslu, þá sneið af kökunni, niður fyrir og aftur fyrir síðustu aldamót.

Þetta er miklu mikilvægari mælikvarði en útblásnar tölur að nafnverði um það sem setja eigi í einhverja málaflokka á komandi árum. Við látum ekki plata okkur svona, við sem kunnum að lesa þessa hluti. Að nafninu til eiga frumgjöldin að haldast á svipuðum stað sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, losa 26% út áætlunartímann. En heildartekjur og heildargjöld fara lækkandi. Þetta má segja með svolítilli einföldun að sé vegna þess að vaxtakostnaðurinn lækki heildargjöldin, minnkandi vaxtakostnaður dregur niður heildargjöld. En frumgjöldin haldast í aðalatriðum óbreytt. Hvers vegna lækkar þá samneyslan? Jú, það er vegna þess að það eru þá fjárfestingarnar, nýbygging Landspítalans og annað slíkt, sem halda uppi frumgjöldunum. Aftur ávísun á að það þrengir að rekstrinum. Það þrengir að raunverulegum fjárveitingum til eiginlegra rekstrarframlaga og velferðarmála. Það les ég út úr þessu.

Og það er allt saman misskilningur að í þessu sé eitthvert uppbyggingarsóknarskeið. Til þess hefði hlutfall frumgjaldanna, og sérstaklega hlutfall samneyslunnar, þurft að hækka. Og það þarf að hækka, það verður að hækka og mun hækka vegna þess að þjóðin lætur ekki bjóða sér þetta endalaust. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Af hverju verður það að hækka? Af tveimur gildum ástæðum aðallega. Það reikna allar vestrænar þjóðir með því, sem búa við svipaða aldurssamsetningu og þróun aldurs í samfélögunum, að þetta hlutfall verði að hækka. Það leiðir algerlega af sjálfu að útgjöld til velferðarþjónustu og umönnunar vaxa í löndum þar sem þannig háttar til að aldraðir verða stærri og stærri hluti samfélagsins. Undir þetta eru allir að búa sig. Hin ástæðan, og hún er svolítið sérstök fyrir Ísland, er hin uppsafnaða þörf sem erfiðleikaárin og reyndar ár lengra til baka hafa skilið eftir. Við höfum ekki fjárfest í uppbyggingu innviða, og því sem við þurfum til að reka hérna gott nútímasamfélag, og verið langt frá því nokkur undangengin ár. Þar með safnast sú þörf upp í ónýtum vegum, óbyggðum húsum, ókeyptum tækjum í framhaldsskóla og háskóla o.s.frv. og verður meiri og meiri eftir því sem þetta ástand varir lengur. Hvenær ætlum við að mæta þessari uppsöfnuðu þörf? Það verður ekki gert öðruvísi en þannig að þessi hlutföll frumgjaldanna og samneyslunnar hækki þó nokkuð, á einhverju árabili að minnsta kosti, á meðan við vinnum upp slakann.

Eftir það gætum við kannski leitað jafnvægis á einhverjum nýjum viðráðanlegum stað. Þetta er algerlega einfalt. Og þessi áætlun nær hvergi máli, skoðuð á þennan mælikvarða. Hún er ávísun á áframhaldandi sveltistefnu næstu fimm ár í anda nýfrjálshyggjunnar, hægri stefnunnar, sem nú þegar hefur farið nógu illa með okkur Íslendinga. Það þarf ekki meira af því tóbaki, alls ekki.

Frú forseti, af einhverjum undarlegum ástæðum fékk ég svo lítinn ræðutíma [Hlátur í þingsal.] að ég kemst lítið í það sem mér ber skylda til að gera, að gera sérstaklega grein fyrir áliti mínu sem 1. minni hluta velferðarnefndar um þann þátt mála. Það álit er að finna sem fylgiskjal með nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar og er upp á fáeinar blaðsíður og menn geta bara lesið það. En í aðalatriðum fer ég þar yfir alla þessa liði og kemst því miður að fremur dapurlegum niðurstöðum. Liðurinn sjúkrahúsþjónusta þoldi ekki skoðun. Það kom í ljós að það á nánast ekki að auka neitt til rekstrar á næsta ári þegar búið er að draga frá það sem á að fara í fjárfestingar og sérstök verkefni. Liðurinn heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa: Það er lítið betri sögu að segja af honum. Þannig er því til dæmis varið með heilsugæsluna, sem er þar langstærsti liðurinn, að okkur tókst aldrei að fá neinar upplýsingar um hvað væri fram undan í fjárfestingum í þeim málaflokki. Aldrei. Fyrir slysni, óvart, kom upp glæra í kynningu velferðarráðuneytisins um að endurnýja ætti húsnæði heilsugæslunnar í Hlíðum. Það voru einu upplýsingarnar. Það er ekkert um það hér, kom ekkert um það frá fjármálaráðuneytinu, við fengum aldrei neinar upplýsingar í viðbót frá velferðarráðuneytinu — en það brá fyrir glæru þar sem allt í einu sást að endurnýja ætti húsnæði heilsugæslunnar í Hlíðum. En hvað með heilsugæsluna í miðborginni, sem er sprungin? Hvað með heilsugæslustöðina í Mosfellsbæ, sem er sprungin? Hvað með heilsugæsluna á Sólvangi í Hafnarfirði, sem er sprungin? Hvað með heilsugæsluna á Reyðarfirði sem þarf að tvöfalda? Hvað með heilsugæsluna á Akureyri sem er að missa sitt húsnæði á næstu misserum? Núll. Engin svör. Engar upplýsingar. Og svigrúmið leyfir engar stórar fjárfestingar því að þá verður enn minna eftir til rekstrar. Hjúkrunarheimili og endurhæfingarþjónusta? Þar eru auðvitað hjúkrunarheimilin langstærsti liðurinn með 40,5 milljarða í fjárlögum yfirstandandi árs. Þar er afar ruglingslegur texti sem einhverjir hafa nú komið inn á á undan mér í umræðunni, svo sem eins og um misræmið í því hvað standi til að fjölga hjúkrunarrýmum mikið. En eitt er víst og það er að þó við tækjum efri töluna er það tæplega helmingurinn af þörfinni sem áætluð er fyrir ný hjúkrunarrými í landinu bara til 2020. Svo svakalegt er það.

Höfum þá í huga ástandið eins og það er, vaxandi fjölda aldraðra, útskriftarvandann á sjúkrahúsunum. Ekki mun ástandið batna með þessu áframhaldi. Og þannig gæti ég áfram talið. Ég tel að í sjálfu sér sé liðurinn örorka og málefni fatlaðs fólks ákaflega grátt leikinn. Það er alveg ljóst að það eru þeim sem þar eiga við að búa og talsmönnum þeirra gríðarleg vonbrigði að sjá þær tölur sem þar eru settar á blað til næstu fimm ára. Þær mæta ekki á nokkurn hátt væntingum manna um að eitthvað betra væri í vændum. Það eru smáaurar sem á að setja inn í það að gera „sambærilegar breytingar á greiðslufyrirkomulagi til öryrkja“ og gerðar voru til aldraðra og gildi tóku 1. janúar á þessu ári. Hreinir smáaurar. Og munu engan veginn mæta vonum öryrkja um að sú kjaragliðnun, sem þeir með réttu benda á að þeir hafi orðið fyrir, verði bætt.

Um málefni aldraðra má þó segja að þar njóta menn þeirrar aukningar sem varð í fjárlögum yfirstandandi árs en það er líka ekkert umfram það. Í aðalatriðum er sagt við aldraða: Óbreytt kjör næstu fimm árin. Og engin frekari hlutdeild í batnandi þjóðarhag. Það er það sem þar er sagt á mannamáli. Vaxtabætur, húsnæðisbætur og barnabætur? Þetta er mjög hörmulegt. Liðurinn fjölskyldumál, að meðtöldu þá fæðingarorlofinu, er gersamlega metnaðarlaus hjá þessari ríkisstjórn. Það er þá aldeilis verið að tala til unga fólksins. Það á ekki að lengja fæðingarorlofið, ekki að setja gólf í greiðslurnar, það á að halda áfram að skerða barnabætur og gera þær að lokum að algerlega grimmilega tengdri bláfátækrahjálp. Það er andinn sem er boðaður í tillögunum. Og þannig gæti ég áfram talið. Húsnæðisstuðningur? Það á að draga úr honum um helming strax að lokinni þeirri skuldbindingu sem fylgdi síðustu kjarasamningum.

Niðurstaðan er einföld, frú forseti, sem ég hef reynt hér að rökstyðja: Ef ekki eru gerðar grundvallarbreytingar á þessari áætlun í anda þess sem breytingartillögur okkar Vinstri grænna og langleiðina Samfylkingarinnar líka ganga út á, að rýmka rammann verulega og (Forseti hringir.) helst auka afganginn úr ríkissjóði, þá á að henda þessu plaggi. Sturta því niður um klósettið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)