146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:15]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður spyr réttilega að því hvað sé varasamt við þetta þak og af hverju mér sé svona meinilla við það. Það eru tvær ástæður. Þá fyrri ræddi ég í ítarlegu máli í ræðu minni, þ.e. að ég tel að fara þurfi hærra með þessi hlutföll bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Gleymum því ekki að þetta er þak á allt saman, á hin opinberu útgjöld í heild. Og þörfin er svo mikil og uppsöfnuð, hjá bæði ríki og sveitarfélögum, að bæta fyrir liðna tíð og borga inn á skuldir sem við höfum safnað upp í ónýtum innviðum og vegum þannig að þetta þak þarf að vera hærra. Það er ekkert að því, þegar vel gengur, að hafa það tímabundið hærra. Hin ástæðan er að sjálfsögðu sú, sem hv. þingmaður nefndi, að ef slær í bakseglin er náttúrlega svo brjálæðislega vitlaust að vera fastur uppi undir þaki strax. Ef landsframleiðslan dregst saman þá hreinlega minnkar það beint (Forseti hringir.) sem menn mega þá ráðstafa út af þessu þaki, nema að fara að grípa til neyðarráðstafana.