146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:16]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir svarið, það var mjög greinargott. Ég og hv. þingmaður áttum bæði sæti í velferðarnefnd Alþingis á síðasta kjörtímabili og tókum þátt í að reyna að vinna að sátt um greiðsluþátttökukerfi sjúklinga. Við unnum að sátt sem snerist um 50 þús. kr. hámarksþak fyrir hinn almenna borgara, 33 þús. kr. fyrir börn, aldraða og öryrkja. En núna, þegar lögin taka gildi, standast ekki þessar samþykktir þingsins, mörkin eru 70 þús. kr. og 46 þús. kr. Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé ekki verulega hugsi yfir því og að jafnvel þurfi að binda ákvarðanir sem þessar betur í lagatextum, en ekki í nefndarálitum eins og gert var, svo að við náum að láta fyrirætlanir okkar ná fram að ganga. Ég verð að segja fyrir mig, sem hv. þingmaður í velferðarnefnd á síðasta kjörtímabili, að ég varð fyrir verulegum vonbrigðum að sjá þetta. Ef við horfum á þá fjárlagavinnu sem fór fram hér í fyrra og kom fram í ræðum sveif það yfir vötnum að sú ríkisstjórn sem tæki (Forseti hringir.) við myndi auka til þessa máls en að markmið þverpólitískrar sáttar næði fram að ganga. Ég spyr hvort hv. þingmaður hafi ekki orðið fyrir vonbrigðum með að sjá ekki skýrari skref stigin í þessum efnum í ríkisfjármálaáætlun.