146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:18]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að það hafi verið ákaflega mikilvægt samkomulag sem tókst hér í fyrra um nýja greiðsluþátttökukerfið og að vinda ofan af áformum frumvarpsins sem gengu jú út á 92 þús. kr. þak. Ég verð að vísu að segja sanngirninnar vegna að ég er ekki viss um að velferðarnefnd þess tíma og ráðuneyti hafi talað nógu skýrt saman þegar menn náðu saman um þetta 50 þús. kr. þak. Ráðuneytið segir nú eftir á: Jú, þegar menn eru komnir með söguna og jafnt yfir mánuði á bak við sig sé þakið 50 þús. kr. en menn geti tímabundið lent upp í 70 þús. kr. o.s.frv. Við þekkjum þetta aðeins.

En núverandi ríkisstjórn lofar síðan áframhaldandi að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga. Þess sér auðvitað hvergi stað í þessu. Ég held að þau áform séu allt of mikið í lausu lofti. Auðvitað þyrftu menn þá að byrja á að koma þakinu absolútt og raunverulega niður í 50 þús. kr. Við höfum bundið vonir við að menn gætu síðan sameinað þökin um lyfjakostnað og heilbrigðiskostnað og haft þann kostnað mjög hóflegan. Þá þarf til þess (Forseti hringir.) fjármuni. Þetta er nú ekkert stórmál í sjálfu sér. Ef menn vilja gera heilbrigðisþjónustuna gjaldfrjálsa að þessu leyti þá eru það 6,5–7 milljarðar kr.