146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:28]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef sjálfur ekki athugað þennan lið sérstaklega. En þetta eru falleg orð sem hv. þingmaður las hér upp að væru þarna sett á blað um aukið gagnsæi og allt það, jafnvel eflda samkeppni og svo framvegis. Þá hefði ég farið og leitað í tölunum. Þá skulum við bara gera það, því að ég hef lesið óskaplega fallega texta á mörgum stöðum í þessu plaggi, t.d. um mikilvægi þess að vinna gegn fátækt. En svo er bara eins og verði eitthvert rof frá texta yfir í tölur. Þegar ég fer að leita að því hvar fjárveitingarnar séu til að útrýma fátækt eða vinna gegn henni: Er það í formi hækkaðra barnabóta? Í formi aukins húsnæðisstuðnings? Eða annarra slíkra hluta? Þá bara finn ég ekki neitt. Þetta eru bara falleg orð á blaði, engar tölur til að bakka þau upp. Eins og þetta fallega orðalag um neytendamál og samkeppni. Ég hef t.d. hvergi fundið að stórefla eigi neytendastarf. Er það þarna? Lesum við það út úr þessu að það hljóti að eiga að stórefla Neytendastofu og (Forseti hringir.) upplýsingagjöf af því tagi? Það verður að vera eitthvert samhengi í hlutunum. Ef menn setja svona fallega texta á blað verða að fylgja þeim einhverjar innstæður ef við eigum að taka mark á þeim.