146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:33]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegir forseti. Mig langar að tæpa aðeins á áhyggjuefni allrar þjóðarinnar sem snertir framtíðina, en það eru fæðingar. Fæðingum fækkar, við stöndum okkur ekki í stykkinu og verðum að gera betur en verið hefur. Það hefur verið baráttumál um langa hríð að lengja fæðingarorlof og hækka greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi. Það eru vísbendingar um þetta í fjármálaáætlun en þær duga hvergi nærri. Hluti af tryggingagjaldinu rennur til greiðslu á fæðingarorlofi. Hvernig metur hv. þingmaður það, rúmast hækkun innan óbreytta tryggingagjaldsins? Leggur hann til að við lækkum tryggingagjaldið? Höldum því óbreyttu? Leggjum meiri áherslu á fæðingarorlofsgreiðslur?