146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:56]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir sköruglega ræðu. Ég þóttist skynja í henni alvarlegan undirtón í bland við hárbeitt háð í anda Ole Lund Kirkegaard sem hann nefndi á nafn áðan. Þá hýrnaði nú yfir mér heldur, hafandi lesið Gúmmí-Tarsan og fleiri slíkar bækur sem eru hin prýðilegasta skemmtun og hitta beint í mark. En það er því miður ekki hægt að segja það sama um þessa fjármálaáætlun, að hún hitti beint í mark. Reyndar gekk hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon svo langt að segja að það ætti að sturta henni niður í klósettið. Ég ræð mönnum reyndar frá því því að það leiðir til þess eins að klósettið stíflast.

Ég vildi spyrja — já, það var bara ein mínúta — hv. þingmann hvort hann telji (Forseti hringir.) að þeim markmiðum sem er að finna í Parísarsamkomulaginu í loftslagsmálum verði náð með þessari fjármálaáætlun.