146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:58]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kaldhæðnislegt að hv. þingmaður hafi komið inn á skolp og klósett, stífluð klósett, skolp og frárennsli, því að í fjármálaáætlun er einmitt ekkert að finna af fjármunum til skolp- og frárennslismála svo að ég komi því nú að.

Varðandi markmiðin um Parísarsamkomulagið er stutta svarið: Nei. Það er augljóst mál að 1 milljarður, sem ramminn til umhverfismála er aukinn um, mun engan veginn duga. Meira að segja í skýrslu um loftslagsmál, sem hér var rætt um sem svarta skýrslu sem þyrfti að taka mjög alvarlega, er bent á tiltölulega einfaldar leiðir sem einar og sér bjarga að sjálfsögðu engu en eru mjög til bóta, t.d. að tvöfalda skógrækt eða jafnvel fjórfalda. Fjórföldun þar myndi ein og sér — ja, ætli þessi milljarður þar myndi ekki nánast allur fara þar í. Þannig að: Nei, það er ósköp einfalt (Forseti hringir.) að ef þetta er ramminn er augljóst að þau markmið nást ekki.