146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[23:00]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. (Gripið fram í.) Ja, ég þóttist skynja hana. En þetta er akkúrat bara gott dæmi um það þegar gjörðir fylgja ekki orðum. Eins og ég kom inn á hefur hæstv. ríkisstjórn mjög gumað af því að nú ætti að taka umhverfismálin sérstaklega alvarlega. Það er ekki hægt að trúa því þegar horft er á þessa ríkisfjármálaáætlun að við það eigi að standa. Það er ekki hægt að trúa því fyrr en raunverulegir fjármunir fylgja, fyrr en raunveruleg aðgerðaáætlun með mælanlegum markmiðum og eyrnamerktu fjármagni fylgir. Við ræddum hér áætlun um orkuskipti í samgöngum, hún ein og sér bendir til þess að þar sé ekki farið eftir þeirri hugmyndafræði að ætla að vera með mælanleg markmið og eyrnamerkta fjármuni. Þessi hugmynd (Forseti hringir.) hæstv. ríkisstjórnar, um að á tveimur af þessum fimm árum sé í lagi að lækka framlög til umhverfismála, er óskiljanleg.