146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[23:02]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir ræðuna. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Er hann ekki sammála mér, man hann ekki eftir því að allir flokkar hafi talað um mikilvægi innviðauppbyggingar í aðdraganda síðustu alþingiskosninga? Getur hann tekið undir orð mín um að þess sjái ekki stað í þeirri ríkisfjármálaáætlun sem hér um ræðir að lögð sé áhersla á hina mikilvægu innviðauppbyggingu, sérstaklega vegna þess ógagnsæis að rekstrarkostnaði og stofnkostnaði er víða blandað saman og vegna skorts á upplýsingum frá ráðuneytum, upplýsingum sem kallað hefur verið eftir í nefndunum til að fá raunverulega að sjá með hvaða fjármagni uppfylla á markmiðin? Er hann sammála því að ef ekki verða gerðar umfangsmiklar breytingar á þeirri ríkisfjármálaáætlun sem hér um ræðir verðum við að hafna því plaggi alfarið?