146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[23:11]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég tók eftir því í ræðu hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés að hann minntist á aðferðafræði og meinsemdir í henni við framleiðslu þessarar fjármálaáætlunar. Það er af nógu að taka hvað varðar aðferðafræðilega galla. Það eru töflur sem eru óútfylltar, það eru engin mælanleg markmið í sumum köflum, kaflarnir eru ekki einu sinni settir fram á sambærilegan hátt. Í ljósi þeirra breytingartillagna sem hafa komið fram og í ljósi þeirra mörgu umsagna sem hafa komið fram er alveg þess virði að spyrja sig: Er eitthvað eitt sem hefði verið hægt að gera til að taka á stórum hluta þeirra fjölmörgu aðferðafræðilegu galla sem eru þó á tillögunni?