146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[23:37]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Nú er ég sammála hv. þm. Óla Birni Kárasyni um að uppsöfnuð fjárfestingarþörf er líklega komin upp undir 700 milljarða ef ekki meira, það vantar að vísu greiningu á því. Ég er algjörlega ósammála honum um að það sé einhvern veginn í lagi að leyfa meingallaðri fjármálaáætlun, eins og hann lýsti sjálfur, að fara í gegn núna og bæta upp fyrir fúskið einhvern tímann á næsta ári. Við höfum á þessum örstutta tíma á þessu þingi verið að leiðrétta hvert fúskið eftir annað.

Hv. þingmaður nefndi í upphafi ræðu sinnar 212 milljarða aukningu á tímabilinu sem er eingöngu tilkomin vegna hagvaxtar, eingöngu. Við vitum það vegna þess að það stendur í fjármálaáætluninni að verið er að minnka útgjöld sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.

Ef hagvöxturinn heldur áfram, ef hann heldur áfram eins og er spáð, þá gæti þetta leyst með einhverjum hætti. En í stað þess (Forseti hringir.) að gera ráð fyrir að þetta muni halda áfram út í hið óendanlega, eins og virðist vera gert ráð fyrir, hvað (Forseti hringir.) þýðir það fyrir okkur ef hagvöxtur minnkar örlítið, segjum 0,6% (Forseti hringir.) bara til að velja tiltekna tölu?

(Forseti (NicM): Forseti vill minna ræðumenn á að halda sig við tímann.)