146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

staðan í gjaldmiðilsmálum.

[10:36]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra getur ekki komið hingað og talið upp það sem þegar hefur verið gert. Hann mætti í viðtal í fyrradag og sagði að nú þyrfti róttækar lausnir til þess að koma böndum á gjaldmiðilinn. Hann mætti líka í annað viðtal í evrubol, væntanlega ekki vegna þess að ekkert annað væri hreint heima hjá honum. Hæstv. ráðherra er að senda ákveðin skilaboð. Hann þarf að tala skýrt við Alþingi Íslendinga um hvaða róttæku lausnir hann á við. Það dugir ekki að vitna hér til þess sem þegar hefur verið gert. Hann þarf að segja okkur hvert hann er að stefna. Væntanlega ætlar hæstv. ráðherra ekki að sitja áfram í húsi sem hann er þegar búinn að lýsa yfir að sé að hruni komið. Við höfum ekki heyrt samstarfsflokk hæstv. ráðherra opna á neinar af þeim róttæku lausnum sem ég nefndi hér áðan. Við þurfum að átta okkur á því hvert hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Íslands vill stefna í gjaldmiðilsmálum og hvaða róttæku lausnir hann boðar. Ég bið hæstv. ráðherra um að svara skýrt.