146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun.

[10:43]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mér fannst þetta nú frekar loðin svör ef ég á að segja alveg eins og er. Ef hæstv. ráðherra myndi virða Alþingi myndi hann láta Alþingi í té þær upplýsingar sem hér hefur verið kallað eftir. Ég vil upplýsa hæstv. ráðherra um það að ef við fáum ekki þessar upplýsingar þá er ekki hægt að samþykkja þennan ramma. Það er bara þannig.

Víkur að annarri spurningu. Þann 3. febrúar sl. birtist eftirfarandi yfirlýsing á vef fjármálaráðuneytisins, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin hyggst stórbæta aðgengi almennings að fjárhagsupplýsingum ríkisins. Mikilvægt skref í þessa veru verður stigið um miðjan mars þegar vefurinn opnirreikningar.is verður opnaður.“

Einnig er tekið fram að vinna við verkefnið hafi hafist á síðasta ári og henni sé að mestu lokið. Þetta var tilkynnt fyrir tæpum fjórum mánuðum síðan. Nú eru liðnir tveir og hálfur mánuður síðan opnirreikningar.is átti að fara í loftið. Hver er ástæða þess að verkefninu hefur seinkað um tvo og hálfan mánuð, hæstv. fjármálaráðherra?