146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun.

[10:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Þetta er alveg rétt hjá hv. þingmanni, að verkefnið hefur tafist. Það hefur þó ekki þýtt að ekki hafi verið vinna við það í fullum gangi. Það hefur verið í rýni hjá ráðuneytum, Fjársýslu ríkisins, og verið er að undirbúa verkefnið en það hefur bara tekið lengri tíma. Það hafa komið athugasemdir og ábendingar t.d. frá Persónuvernd. Ég er mjög áhugasamur um þetta verkefni eins og ég hef látið í ljós við þingheim og ég vonast til þess að það gangi sem allra hraðast. Ég verð hins vegar bara að játa að það hefur gengið hægar en ég vonaði, þó hafa þær ábendingar sem fram hafa komið vissulega átt rétt á sér. Ég á von á að þeirra muni sjá stað þegar vefurinn fer í loftið. Ég vona að það verði sem allra fyrst. Ég þori ekki að lofa neinu, en það verður vonandi fyrir haustið, kannski fyrr.